top of page

Hvað er jóga nidra

Jóga nidra þýðir jógískur svefn og er ævaforn tækni til að sameina hugleiðslu og slökun. Jóga nidra mætti líkja við liggjandi leidda hugleiðslu þar sem viðkomandi kemur sér þægilega fyrir án allra truflana og lætur leiða sig inn í kyrrðina handan hugans.


Hugurinn er oft upptekinn af utanaðkomandi hljóðum. Ef skynhrif væru útilokið með valdi myndi hugurinn verða órólegur og truflandi. Þess vegna leitar hugurinn í utanaðkomandi hljóð sem fer frá hljóði til hljóðs. Eftir einhvern tíma missir hugurinn áhugann á öllu sem er fyrir utan okkur og þagnar. Það ástand undirbýr meðvitundina til að iðka jóga nidra. Í jóga nidra erum við að vinna með ásetning, sem er eins og lítið fræ sem við plöntum í undirvitundina, með því erum við að breyta á óbeinan hátt tilfinningum, hegðun og viðhorfum. Þegar við förum í jóga nidra þá breytist vitundarástand okkar, einbeiting og sefnæmi eflist sem gerir það að verkum að við eigum auðveldara með að gera breytingar, tileinka okkur ný viðhorf, breyta hegðun og hugsun. Ásetningur getur verið eitthvað mjög einfalt, eitthvað sem við erum að stefna að eða jafnvel eitthvað sem við erum nú þegar búin að ná og viljum halda í. Ásetningur er skýr og einfaldur. Sem dæmi má nefna að ásetningur getur verið að þú finnir jafnvægi og vellíðan, þú finnir innri frið. Ekki búast við niðurstöðu á einni nóttu. Gott er að nota sama ásetning í nokkurn tíma.


Það eina sem þú þarft að gera í jóga nidra er að hlusta, vera vakandi og beina athyglinni á þá staði sem er talað um. Leyfðu þér að finna og upplifa meira það sem er að gerast í líkamanum og gefðu huganum hvíld. Það er ekki hægt að gera neitt vitlaust í jóga nidra. Við erum að æfa okkur í að vera vakandi vitund og ekki sofna, heldur hlusta og finna. Ávinningurinn af því að stunda jóga nidra er margvíslegur, það stuðlar að auknu andlegu jafnvægi, dregur úr streitu, kvíða og þunglyndi, er endurnærandi og færir okkur meiri líkamsmeðvitund og vellíðan. Í jóga nidra getum við einnig losað út gömul áföll.




Comments


bottom of page