Hvað er hugleiðsla?
top of page

Hvað er hugleiðsla?


Hugleiðsla er mörg þúsund ára gömul aðferð til þess að friða hugann. Hugleiðsla er ein af okkar náttúrulegu aðferðum til þess að koma jafnvægi á huga, líkama og sál. Hugleiðsla er aðferð til þess að læra að stjórna huganum og beina honum í ákveðna átt og láta af sjálfstýringu hugans. Oftast erum við þrælar hugans og á sjálfstýringu án þess að gera okkur grein fyrir því. Talið er að 70.000 hugsanir fari í gegnum hugann daglega og 98% þeirra séu neikvæðar. Líf okkar samanstendur af hugsunum okkar og hugsanir verða að gjörðum sem við tökum á hverri stundu. Þú verður það sem þú hugsar, þess vegna skiptir miklu máli að vera meðvituð/aður um hugsanir sínar og temja sér aðferðir til þess losna undan óstýrlátum hugsunum sem hafa áhrif á líðan okkar, þær geta m.a. valdið streitu og kvíða.


Hugleiðsla getur verið svo margt, en yfirleitt erum við að þjálfa hugann og beina honum í ákveðna átt, t.d að andardrættinum, beina athyglinni inn á við og á ákveðin stað, notum hljóð eða möntrur með eða án handahreyfinga. Hugleiðsla er þjálfun hugans sem eflir einbeitingu og skýrleika hugsana. Þegar við þjálfum hugann í núvitund þá eflum við einbeitingu, innsæi og skýrleika sem hjálpar okkur að fást við óstýrlátar hugsanir sem dynja á okkur daglega. Í stað þess að láta hugann teyma okkur áfram hvert sem hann vill, lærum við að leyfa hugsunum að flæða í gegn án þess að veita þeim athygli. Með aukinni ástund lærum við að vera stjórnandi okkar eigin hugsana og við hættum að vera þrælar hugans á sjálfstýringu. Hugleiðsla eflir innsæið sem verndar okkur og gefur okkur svör við spurningum sem við vissum ekki áður. Svarið er alltaf innra með okkur. Það er gott að byrja daginn á hugleiðslu og þá ertu að stilla innri strengi fyrir daginn. En auðvitað má stunda hugleiðslu hvenær sem er.


Það er ekki nóg að hlúa einungis að líkamanum og hreyfa sig, við þurfum líka að veita huganum hvíld. Það er mikið um álag, hraða og streitu í nútíma þjóðfélagi og það er mun auðveldara að villast af leið þar sem kröfurnar eru orðnar miklar. Við eigum það til að gleyma okkur, erum stöðugt með athyglina út á við og við hættum að gefa innri líðan gaum. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að staldra við augnablik og leyfa okkur að fara inn í kyrrðina og friðinn þar sem við hættum að gera og leyfum okkur að vera.


Rannsóknir sýna að hugleiðsla ýtir undir andlega og líkamlega vellíðan sem auðveldar okkur að takast á við verkefni lífsins. Rannsóknir sýna að hugleiðsla hefur margvíslegan ávinning m.a:


· Dregur úr streitu og kvíða

· Bætir svefn

· Bætir minni

· Bætir einbeitingu og skýrleika

· Styrkir ónæmiskerfi og taugakerfi

· Veitir hugarró og innri frið

· Veitir ánægju og vellíðan

· Ýtir undir bjartsýni og von


Það skemmtilega við hugleiðslu er, að það er nánast hægt að gera hana hvar sem er og hvenær sem er: sitjandi, liggjandi, standandi, úti í náttúrunni, í sundi, í vatni, í bíl, í flugvél, á göngu og lengi mætti telja.





bottom of page